Forsaga rammaáætlunar
1971-1999
Fyrstu skrefin
Allt frá því að lög um náttúruvernd voru samþykkt hérlendis árið 1971 (nr. 47/1971) var leitað eftir áliti Náttúruverndarráðs á fyrirhuguðum virkjunarframkvæmdum og skipulagt samstarf var með ráðinu og virkjunaraðilum næstu ár.
Fyrsta tillagan um að útbúin yrði „... áætlun um verndun vatnsfalla og jarðhitasvæða, fossa og hvera“ og hún staðfest af Alþingi var lögð fyrir Alþingi árið 1985 af Hjörleifi Guttormssyni. Eftir endurteknar tilraunir til að afla tillögunni brautargengis var hún samþykkt sem þingsályktun á Alþingi 24. apríl 1989:
Alþingi ályktar að fela ríkisstjórninni að láta undirbúa á vegum Náttúruverndarráðs í samráði við yfirvöld orkumála áætlun um verndun vatnsfalla og jarðhitasvæða, fossa og hvera. Drög að slíkri áætlun verði lögð fyrir Alþingi til kynningar fyrir árslok 1990 og áætlunin fullbúin til staðfestingar síðar.
Þingsályktunin var rædd nokkrum sinnum á fundum SINO-nefndarinnar svokölluðu (samstarfsnefnd Náttúruverndarráðs og iðnaðarráðuneytisins um orkumál) árið 1990. Þar var ákveðið að nýta reynslu Norðmanna með því að greina verndar- og virkjunarsjónarmið sitt í hvoru lagi og bera svo saman. Vinnuhópur var stofnaður til að sinna verkefninu og var hann skipaður fulltrúum Orkustofnunar, Landsvirkjunar og Náttúruverndarráðs. Fyrirséð var að vinnan tæki lengri tíma en Alþingi upphaflega gerði ráð fyrir og var þinginu gerð grein fyrir því. Til stóð að ljúka vinnunni um haustið 1993 en til þess kom ekki, m.a. vegna fjárskorts.
Straumhvörf með stofnun umhverfisráðuneytis
Á þessum tíma urðu miklar breytingar í umhverfismálum á Íslandi. Umhverfisráðuneytið var stofnað árið 1990 og í framhaldi af því breyttist lagaumhverfið töluvert. Til dæmis voru sett lög um mat á umhverfisáhrifum framkvæmda, sem samþykkt voru á Alþingi árin 1993 og 2000, og ný skipulagslög voru samþykkt 1997 (þau lög féllu úr gildi með nýjum lögum árið 2010).
Árið 1993 færðist vinna við áætlun um verndun vatnsfalla og jarðhitasvæða til starfshóps um umhverfismál, iðnþróun og orkumál á vegum umhverfisráðuneytisins. Hópnum var falið að skilgreina sjálfbæra þróun í þessum málaflokkum og setja fram markmið til skemmri og lengri tíma. Starfshópurinn skilaði áliti í mars 1995 þar sem meðal annars var lagt til að gerð yrði rammaáætlun til langs tíma um nýtingu vatnsafls. Nokkrir aðrir starfshópar tóku fyrir aðra málaflokka með svipuðum formerkjum og niðurstaða allra hópanna var lögð fyrir Umhverfisþing árið 1996. Að teknu tilliti til athugasemda þingsins var samin framkvæmdaáætlun sem samþykkt var í ríkisstjórn í febrúar 1997 og nefndist „Sjálfbær þróun í íslensku samfélagi. Framkvæmdaáætlun til aldamóta“. Í samþykktinni segir m.a.
Iðnaðarráðherra, í samráði við umhverfisráðherra, láti gera rammaáætlun til langs tíma um nýtingu vatnsafls og jarðvarma og skal henni lokið fyrir árslok 2000. Áætlunin sé í samræmi við samhæfða stefnu í umhverfis-, orku-, iðnaðar- og efnahagsmálum auk ferðaþjónustu. Í henni verði sérstaklega fjallað um verndargildi einstakra vatnasvæða og niðurstöður felldar að skipulagi. Í því sambandi verði sérstaklega könnuð áhrif smárra virkjana.
Þátttaka Landverndar
Vert er að geta framlags Landverndar í þessu ferli. Samtökin efndu til samstarfsverkefnis haustið 1998 með það að markmiði að halda ráðstefnu um vernd og nýtingu hálendis Íslands, miðla faglegri þekkingu um hálendið og kynna mismunandi viðhorf til verndar og nýtingar þess. Um þetta leyti hafði samstarfsnefnd um svæðisskipulag miðhálendisins lokið störfum. Undirbúningur ráðstefnunnar fór fram í fjórum starfshópum sem ræddu umhverfis- og náttúruvernd, orkuvinnslu og orkunýtingu, ferðaþjónustu og útivist og beitar- og hlunnindaafnot. Þess var einnig vænst að fagleg rökstudd umræða sameinaði sjónarmið og stuðlaði að víðtækri sátt um vernd og nýtingu hálendisins. Á ráðstefnunni, sem haldin var í janúar 1999, fluttu hóparnir erindi um störf sín og almenn umræða hvatti til framhalds þessarar vinnu.