Fróðleikur 1

Árið 2020 voru 69% raforku á Íslandi unnin úr vatnsafli, 31% komu úr jarðhita og 0,04% frá vindorku.
Einungis 0,02% raforku það árið voru unnin úr jarðefnaeldsneyti.

Heimild: Orkustofnun, Orkutölur 2020

Fróðleikur 2

Járnblendið notaði árið 2010 tæplega 6% af raforkuframleiðslu landsins, eða eilítið meira en öll heimilin í landinu samanlagt.

Heimild: Orkumál 2010

Fróðleikur 3

Raforkunotkun áliðnaðarins þrefaldaðist milli áranna 2002 og 2010.

Heimild: Orkumál 2010

Fróðleikur 4

Miðað við höfðatölu framleiða Íslendingar meiri orku en nokkurt annað land á jörðinni. Árið 2020 var framleiðslan 51,9 MWh/íbúa. Stærstur hluti þessarar orku, eða um 80%, er notaður af stóriðju.

Heimild: Orkustofnun 2021

Fróðleikur 5

Ísland hefur þá sérstöðu meðal þjóða heims að nær öll orka sem framleidd er í landinu er unnin úr endurnýjanlegum orkugjöfum, þ.e. vatnsafli og jarðvarma. 

Heimild: Orkumál 2010

Fróðleikur 6

Vatnsafl, jarðvarmi og vindorka eru endurnýjanlegar orkulindir. Hugtakið „endurnýjanleg“ þýðir í þessu samhengi að uppspretta orkunnar eyðist ekki, a.m.k. ekki innan þess tímaramma sem mannfólk er vant að miða við (áratugur, hugsanlega öld eða árþúsund).

Fróðleikur 7

Sjálfbærar orkulindir eru þær endurnýjanlegu orkulindir sem hægt er að nýta í takt við endurnýjun þeirra.

Fróðleikur 8

Engin ein skilgreining er til á því hvað sé sjálfbær og ósjálfbær virkjunarhugmynd. Hins vegar má með samanburði greina hvort tiltekin virkjunarhugmynd sé sjálfbærari en önnur. 

Fróðleikur 9

Íslendingar eru stoltir af náttúru landsins og telja hana vera helsta sameiningartákn þjóðarinnar, umfram bæði fánann og tungumálið. 

Heimild: Dr. Þorvarður Árnason, 2005

Fróðleikur 10

Menningarminjar teljast ummerki um sögu þjóðarinnar, m.a. fornminjar og menningar- og búsetulandslag. Allar fornleifar á Íslandi eru friðaðar og sumar þeirra eru friðlýstar. 

Fróðleikur 11

Virkjunarframkvæmdir geta haft ýmiss konar áhrif á menningarsögulegar minjar, t.d. fært þær í kaf undir lón eða valdið rofi á þeim séu þær nálægt vatnsborði lónsins. 

Fróðleikur 12

Hlutur ferðaþjónustunnar í gjaldeyristekjum þjóðarinnar var 26,8% árið 2013 og aflaði greinin þannig meiri tekna en bæði sjávarútvegur og stóriðja.

Heimild: Hagstofa Íslands

Fróðleikur 13

Fyrir covid-faraldurinn var ferðaþjónustan stærsti útflutningsatvinnuvegur þjóðarinnar og dró ríflega 2,3 milljónir ferðamanna til landsins á ári (2018). Kannanir sýna að um 80% erlendra ferðamanna koma til landsins til að upplifa íslenska náttúru. 

Heimild: Ferðamálastofa

Fróðleikur 14

Nýjustu tölur um fjölda starfsfólks í ferðaþjónustu eru frá 2009 en á því ári vann um 5% vinnuafls í greininni. Ætla má að með mikilli fjölgun ferðamanna síðan þá hafi störfum í greininni einnig fjölgað.

Heimild: Hagstofa Íslands

Fróðleikur 15

Virkjunarkostur er áætluð og skilgreind framkvæmd til að virkja ákveðinn orkugjafa (t.d. vatnsafl, jarðhita, vind) á ákveðnum stað. 

Fróðleikur 16

Virkjunarkostir sem ekki þykir rétt að ráðast í eru settir í verndarflokk. 

Fróðleikur 17

Virkjunarkostir sem ekki er hægt að taka afstöðu til vegna skorts á gögnum eru settir í biðflokk. 

Fróðleikur 18

Virkjunarkostir sem talið er að ráðast megi í eru settir í orkunýtingarflokk.